Til hverra nær samningur ASÍ og SA um vinnustaðaskírteini?

Samkvæmt lögum nr. 42/2010 um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum skulu samtök aðila vinnumarkaðarins semja um til hvaða atvinnugreina og starfa innan þeirra lögin taki hverju sinni. Samkomulag ASÍ og SA frá 15. júní 2010 og viðbótarsamkomulag sömu aðila frá 5. maí 2011 og 16. apríl 2013 afmarka gildissvið laganna. Samkvæmt 2. gr. samkomulagsins með áorðnum breytingum er gildissviðið tvíþætt. Annars vegar eru atvinnugreinar tilgreindar, þ.e. byggingastarfsemi og mannvirkjagerð, rekstur gististaða, söluturnar og veitingarekstur, húsgagna- og innréttingaiðnaður, gleriðnaður og skyld starfsemi, kjötiðnaður, bakstur, bílgreinar, rafiðnaður, ýmsar málm- og véltæknigreinar, veitustarfsemi, fjarskipti og upplýsingastarfsemi og öryggisþjónusta, ræktun nytjajurta, svína- og alifuglarækt, eggjaframleiðsla, farþegaflutningar á landi og ferðaþjónusta, skrúðgarðyrkja og ýmis þjónustustarfsemi eins og framangreind starfsemi er afmörkuð í fylgiskjölum með samkomulagi ASÍ og SA, og er þar byggt á atvinnugreinaflokkun ÍSAT2008. Hins vegar takmarkast gildissviðið við atvinnurekendur og starfsmenn þeirra sem falla undir starfsgreinaflokkun skv. ÍSTARF95 sem hér segir: Bálka 7, 8 og 9: Deildir 51,: Klasa 122, 131, 312, 611, 612 og 613: Starfaflokka: 4221 og 5221.

Þá segir einnig í samkomulaginu að „Atvinnurekendur og starfsmenn þeirra sem ekki eru taldir upp í 1. mgr. en vegna vinnu sinnar sinna verkefnum í slíkum fyrirtækjum skulu bera vinnustaðaskírteini þegar þeir eru við þau störf.“

Til einföldunar má segja að atvinnurekendur og starfsmenn í þeim atvinnugreinum sem falla undir samkomulagið og sem starfa við þá framleiðslu eða þjónustu sem um ræðir skuli bera vinnustaðaskírteini. Þar með taldir stjórnendur fyrirtækja með færri en 10 starfsmenn. Skyldan nær hins vegar t.d. ekki til skrifstofufólks og stjórnenda stærri fyrirtækja.

Dæmi: Byggingarfyrirtæki fellur undir gildissviðið en ekki er þar með sagt að allir starfsmenn þess falli undir samkomulagið því starfið þarf jafnframt að falla undir starfaflokkun ÍSTARF95.

Dæmi: Rafvirkjar falla undir samkomulagið en einungis ef þeir starfa innan þeirra atvinnugreina sem samkomulagið nær til.

Atvinnugreinaflokkun

Lögin og samkomulagið ná til deilda, flokka og atvinnugreinar skv. ÍSAT2008 sem hér segir.

Allir atvinurekendur sem skráðir eru í fyrirtækjaskrá RSK undir þeim deildum ÍSAT 2008 sem tilteknar eru í skránni sem vísað er í hér að ofan falla undir samkomulag ASÍ og SA og þar með lögin. Á það jafnt við um lögaðila sem sjálfstætt starfandi einstaklinga, sbr. 4. mgr. 1. gr. laga nr. 42/2010.

Atvinnugreinaflokkunina skv. ÍSAT2008 ásamt nánari skýringum má finna á heimasíðu Hagstofunnar http://www.hagstofa.is/utgafur/nanar-um-utgafu?id=54698.

Starfaflokkun

Innan ofangreindra atvinnugreina er fjöldi ólíkra starfa en samkomulagið nær ekki til þeirra allra. Samkomulagið nær t.d. til verkafólks og iðnaðarmanna hjá byggingafyrirtækjum en ekki til ýmissa sérfræðinga og skrifstofufólks. Framkvæmdastjórar lítilla fyrirtækja falla undir samkomulagið en ekki meðalstórra og stærri fyrirtækja. Gildissviðið ræðst af því hvort viðkomandi starfsmenn falli undir eftirtalda bálka, deildir, klasa og starfaflokka skv. ÍSTARF95 (2. útg.):

Bálkur:

7: Störf iðnaðarmanna og sérhæfðs iðnverkafólks
8: Störf véla- og vélgæslufólks
9: Ósérhæfð störf

Deild:

51: Þjónustu- og umönnunarstörf

Klasi:

122: Yfirmenn framleiðslu- og rekstrardeilda
131: Framkvæmdastjórar og forstöðumenn lítilla fyrirtækja og stofnana
312: Tæknistörf á tölvusviði
611: Akuryrkju- og garðyrkjubændur
612: Búfjárbændur
613: Akuryrkju- og búfjárbændur með blandað bú

Starfaflokkur:

4221: Störf við farmiðasölu
5221: Afgreiðslu- og sölustörf í dagvöruverslunum, bakaríum, bensínstöðvum, lagerum, sjoppum, myndbandaleigum og lík störf

Nálgast má upplýsingar um starfaflokkun ÍSTARF95 á heimasíðu Hagstofunnar http://www.hagstofa.is/utgafur/nanar-um-utgafu?id=54683.