Réttindi og skyldur eftirlitsfulltrúa

Í lögum um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum (nr.42/2010) segir um hlutverk og réttindi eftirlitsfulltrúa:
„Eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins er heimilt að fara í eftirlitsheimsóknir á vinnustaði atvinnurekanda til að ganga úr skugga um að atvinnurekandi og starfsmenn hans starfi í samræmi við gildandi lög, reglugerðir og kjarasamninga. Skal eftirlitsfulltrúunum veittur aðgangur að vinnustöðum í þeim tilgangi.
Í eftirlitsheimsóknum skulu eftirlitsfulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins hafa samband við atvinnurekanda eða fulltrúa hans. Atvinnurekandi og starfsmenn hans skulu sýna vinnustaðaskírteini sé óskað eftir því.
Eftirlitsfulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins skulu senda upplýsingar þær sem fram koma á vinnustaðaskírteini til skattyfirvalda, Vinnumálastofnunar, Tryggingastofnunar ríkisins, lögreglustjóra og, þegar við á, Útlendingastofnunar og Þjóðskrár þannig að unnt sé að kanna hvort atvinnurekandi eða starfsmaður starfi í samræmi við hlutaðeigandi lög sem hverri stofnun er ætlað að annast framkvæmd á.
Eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins sem sinna eftirliti ber að sýna skírteini við störf sín sem samtökin gefa sameiginlega út.
Eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins er heimilt að leita aðstoðar lögreglu við eftirlitið þegar slíkt þykir nauðsynlegt.“

Í samkomulagi ASÍ og SA segir ennfremur:
„Eftirlitsfulltrúi skráir niður upplýsingar sem koma fram á vinnustaðaskírteini í sérstakan gagnagrunn.
Eftirlitsfulltrúi skal senda upplýsingar sem fram koma á vinnustaðaskírteinum til þeirra opinberu aðila sem tilgreindir eru í lögum um vinnustaðaskírteini. Form og tíðni upplýsingagjafar fer eftir óskum hlutaðeigandi aðila.
Sé ekki trúnaðarmaður stéttarfélags á vinnustað getur eftirlitsmaður á þess vegum óskað eftir aðgangi að upplýsingum á grundvelli samkomulags ASÍ og SA um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði.“

Hér má sjá lista yfir eftirlitsfulltrúa sem viðurkenndir hafa verið af aðilum vinnumarkaðarins.