Framkvæmd eftirlits á vinnustöðum

Í lögum nr. 42/2010 og samkomulagi ASÍ og SA frá 15. júní 2010 er fjallað um vinnustaðaeftirlit og störf eftirlitsfulltrúa.

Þeir einir eru eftirlitsfulltrúar í skilningi laganna sem fengið hafa formlega staðfestingu samráðsnefndar ASÍ og SA, undirritað trúnaðaryfirlýsingu og fengið skírteini sem samráðsnefndin gefur út til staðfestingar á stöðu þeirra. Nöfn og myndir af eftirlitsmönnum er að finna á vefnum undir „Eftirlitsfulltrúar“.

Eftirlitsfulltrúum er heimilt að fara í eftirlitsheimsóknir á vinnustaði atvinnurekanda, sem undir lögin falla, til að ganga úr skugga um að atvinnurekandi og starfsmenn hans starfi í samræmi við gildandi lög, reglugerðir og kjarasamninga. Skal eftirlitsfulltrúunum veittur aðgangur að vinnustöðum í þeim tilgangi.

Eftirliti skal þannig háttað að sem minnst röskun verði fyrir starfsemina. Atvinnurekanda eða fulltrúa hans er að öðru leyti óheimilt að hafa áhrif á framkvæmd eftirlits.

Eftirlitsfulltrúi skal vera búinn þeim persónuhlífum sem almenn krafa er um á vinnustöðum og virða þær öryggisreglur sem á vinnustað gilda.

Í eftirlitsheimsóknum skulu eftirlitsfulltrúar hafa samband við atvinnurekanda eða fulltrúa hans (stjórnanda) og sýna skírteini sitt til staðfestingar á stöðu sinni. Atvinnurekandi og starfsmenn hans skulu sýna eftirlitsfulltrúar vinnustaðaskírteini óski hann þess. Eftirlitsfulltrúar skrá niður upplýsingar sem koma fram á vinnustaðaskírteini í sérstakan gagnagrunn.

Eftirlitsfulltrúi getur óskað þess að trúnaðarmaður hlutaðeigandi stéttarfélags veiti aðstoð við eftirlit.

Eftirlitsfulltrúa er heimilt að afhenda starfsmönnum upplýsingar um kaup og önnur starfskjör samkvæmt kjarasamningum hlutaðeigandi starfsstéttar og yfirlit yfir lög- og samningsbundin réttindi og skyldur.

Eftirlitsfulltrúar skulu senda upplýsingar þær sem fram koma á vinnustaðaskírteini til skattyfirvalda, Vinnumálastofnunar, Tryggingastofnunar ríkisins, lögreglustjóra og, þegar við á, Útlendingastofnunar og Þjóðskrár þannig að unnt sé að kanna hvort atvinnurekandi eða starfsmaður starfi í samræmi við hlutaðeigandi lög sem hverri stofnun er ætlað að annast framkvæmd á.

Eftirlitsfulltrúum er óheimilt að nota aðstöðu sína til að afla annarra upplýsinga um starfsemina en þeirra sem eru nauðsynlegar eða kunna að vera nauðsynlegar í þágu eftirlitsins. Enn fremur er þeim óheimilt að veita öðrum upplýsingar um starfsemina, starfsmenn eða aðra aðila ef þeir hafa fengið upplýsingarnar vegna eftirlits síns og ástæða er til að ætla að þeim skuli haldið leyndum.

Ef eftirlitsfulltrúum er neitað um aðgengi að vinnustöðum eða ef atvinnurekandi eða starfsmenn hans bera ekki vinnustaðaskírteini á sér geta eftirlitsfulltrúarnir tilkynnt um það til Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun getur krafist þess að atvinnurekandi bæti úr annmörkunum innan hæfilegs frests að viðlögðum dagsektum. Eftirlitsfulltrúum er heimilt að leita aðstoðar lögreglu við eftirlitið þegar slíkt þykir nauðsynlegt.