Spurt og svarað

Hvaða viðurlög eru við brotum varðandi vinnustaðaskírteinin?

Hvað segir Persónuvernd um vinnustaðaskírteinin?

Verður starfsmaður að bera vinnustaðaskírteinið utan á sér þannig að það séu öllum sýnilegt?

Til hvaða atvinnugreina/starfa ná lögin og samkomulagið?

Þurfa atvinnurekendur og einyrkjar/sjálfstætt starfandi líka að bera vinnustaðaskírteini?

Hver er ábyrgur fyrir að láta útbúa vinnustaðaskírteinin?

Nær skyldan til að gefa út og bera vinnustaðaskírteini til fyrirtækja og starfsmanna utan SA og ASÍ og þar með til erlendra fyrirtækja með tímabundna starfsemi hér á landi og starfsmanna þeirra?

Hvaða viðurlög eru við brotum varðandi vinnustaðaskírteinin?

Í 6. gr. laga um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum er kveðið á um dagsektir. Þar segir m.a. að ef eftirlitsfulltrúum er neitað um aðgengi að vinnustöðum atvinnurekanda eða ef atvinnurekandi eða starfsmenn hans bera ekki vinnustaðaskírteini á sér við störf sín þá geta eftirlitsfulltrúarnir tilkynnt um það til Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun getur krafist þess að atvinnurekandi bæti úr annmörkunum að viðlögðum dagsektum. Dagsektir geta numið allt að 100.000 krónum hvern dag.

Hvað segir Persónuvernd um vinnustaðaskírteinin?

Persónuvernd gerir ekki athugasemdir við að starfsmönnum sé skylt að bera vinnustaðaskírteini. Hins vegar hefur Persónuvernd gert eftirfarandi samþykkt varðandi kennitölu starfsmanns ef honum gert að hafa vinnustaðaskírteinið sýnilegt öllum þeim sem hann á samskipti við:

„Þegar starfsmaður þarf að bera vinnustaðaskírteini á sér, s.s. sem nafnspjald eða barmmerki, eða hafa það á annan hátt sýnilegt öllum sem hann hefur samskipti við, á kennitala hans ekki að vera á framhlið þess nema það sé í senn nauðsynlegt og málefnalegt vegna sérstakra aðstæðna á viðkomandi vinnustað.“

Þetta þýðir m.ö.o. að í tilfellum eins og lýst er hér að framan á kennitalan að vera á bakhlið skírteinisins. Ef hins vegar atvinnurekendi telur að það sé í senn nauðsynlegt og málefnalegt að kennitalan sé engu að síður á framhlið skírteinisins er rétt að leita álits Persónuverndar áður en ákvörðun er tekin um slíkt.

Verður starfsmaður að bera vinnustaðaskírteinið utan á sér þannig að það séu öllum sýnilegt?

Nei, lögin og samkomulagið kveða ekki á um það.

Lögin: ”Atvinnurekanda og starfsmönnum hans ber að hafa vinnustaðaskírteinin á sér við störf sín.”

Samkomulagið: “Atvinnurekandi og starfsmenn hans skulu bera skírteini á sér og vera reiðubúnir að framvísa því, sé þess óskað af eftirlitsfulltrúa.”

Til hvaða atvinnugreina/starfa ná lögin og samkomulagið?

Lögin vísa ákvörðun um slíkt til aðila vinnumarkaðarins.

Í samkomulagi ASÍ og SA segir: „Samkomulag þetta nær til atvinnurekenda og starfsmanna þeirra sem vinna við byggingastarfsemi og mannvirkjagerð, rekstur gististaða, söluturna og veitingarekstur, húsgagna- og innréttingaiðnað, gleriðnað og skylda starfsemi, kjötiðnað, bakstur, bílgreinar, rafiðnað, ýmsar málm- og véltæknigreinar, veitustarfsemi, fjarskipti og upplýsingastarfsemi og öryggisþjónustu, ræktun nytjajurta, svína- og alifuglarækt, eggjaframleiðslu, farþegaflutninga á landi og ferðaþjónustu, skrúðgarðyrkju og ýmsa þjónustustarfsemi eins og framangreind starfsemi er afmörkuð í fylgiskjölum 1 og 2.“ Til að sjá betur til hvaða atvinnugreina samkomulagið nær skal bent á að skoða fylgiskjal 1 með samkomulaginu. 1. maí 2013 bættust síðan við atvinnugreinar skv. fylgiskjali 2.

Atvinnurekendur og starfsmenn þeirra sem ekki eru taldir upp í 1. mgr. en vegna vinnu sinnar sinna verkefnum í slíkum fyrirtækjum skulu bera starfsmannaskírteini þegar þeir eru við þau störf.

Samkomulagið nær þó ekki til annarra atvinnurekenda og starfsmanna skv. 1. og 2. mgr. en þeirra sem falla undir starfsgreinaflokkunina skv. ÍSTARF95 sem hér segir: Bálka 7, 8 og 9: Deildir 51,: Klasa 122, 131, 312, 611, 612 og 613: Starfaflokka: 4221, og 5221.

Þurfa atvinnurekendur og einyrkjar/sjálfstætt starfandi líka að bera vinnustaðaskírteini?

Já, starfi þeir við þær atvinnu- og starfsgreinar sem samkomulag ASÍ og SA nær til.

Hver er ábyrgur fyrir að láta útbúa vinnustaðaskírteinin?

Lögin: “Atvinnurekandi skal sjá til þess að hann sjálfur og starfsmenn hans, hvort sem starfsmennirnir eru ráðnir beint til atvinnurekanda á grundvelli ráðningarsamnings eða koma til starfa með milligöngu starfsmannaleigu, fái vinnustaðaskírteini er þeir hefja störf.”
Samkomulagið: “Atvinnurekandi, sem samkomulag þetta nær til, skal sjá til þess að starfsmenn fái vinnustaðaskírteini þegar þeir hefja störf.”

Atvinnurekandi er jafnframt ábyrgur fyrir að þær upplýsingar sem fram koma á vinnustaðaskírteinunum séu réttar.

Á vefnum www.skirteini.is eru form fyrir vinnustaðaskírteini sem atvinnurekendur geta nýtt sér (en eru ekki bundnir af). Þar er einnig að finna upplýsingar um fyrirtæki sem útbúa slík skírteini.

Nær skyldan til að gefa út og bera vinnustaðaskírteini til fyrirtækja og starfsmanna utan SA og ASÍ og þar með til erlendra fyrirtækja með tímabundna starfsemi hér á landi og starfsmanna þeirra?

Já, skyldan nær til allra fyrirtækja og starfsmanna sem eru með starfsemi og starfa í þeim atvinnu- og starfsgreinum sem samkomulag ASÍ og SA nær til.

Lögin: “Lög þessi gilda um atvinnurekendur, og starfsmenn þeirra, sem reka starfsemi á innlendum vinnumarkaði, hvort sem hún er ótímabundin eða tímabundin, eða senda starfsmenn hingað til lands í tengslum við veitingu þjónustu innan tiltekinna atvinnugreina, sbr. 2. mgr.
Samtök aðila vinnumarkaðarins skulu semja nánar um það í kjarasamningum sín á milli til hvaða atvinnugreina og starfa innan þeirra lög þessi taka á hverjum tíma. Skulu þeir kjarasamningar sem og aðrir samningar sem gerðir eru milli aðila um nánari framkvæmd laga þessara gilda um alla atvinnurekendur sem starfa innan þeirra atvinnugreina á innlendum vinnumarkaði sem tilgreindar eru í samningum aðila.